Síriti sem nemur lífsmörk

Síriti (e. vital signs monitor) lítur út eins og lítill sjónvarpsskjár og er einn riti staðsettur við hvert stæði eða hvern hitakassa. Síritinn fylgist með hjartslætti og öndun barnsins (1). Á bringu barnsins eru límdir leppar sem kallaðir eru elektróður og úr þeim liggja snúrur sem leiða til síritans. Síritinn nemur rafvirkni í hjarta barnsins og hreyfingar brjóstkassans. Síðan flytur hann upplýsingarnar á skjáinn og birtir þær sem tölur. Ef tölurnar á skjánum falla utan við fyrirfram tilgreind mörk þá gefur síritinn frá sér píp sem viðvörunarhljóð. Það getur gerst oft, sérstaklega fyrstu dagana og reynist oft óþægilegt fyrir foreldra. Viðvörunarhljóðið lætur starfsfólk vita að tölur sem síritinn nemur um öndun, hjartslátt, blóðþrýsting eða súrefnismettun séu utan við þau mörk sem tilgreind eru. Ekki er endilega hætta á ferðum þó tækið pípi, slíkt gerist reglulega án þess að eitthvað sé að. Gott ráð fyrir foreldra sem óttast þessi hljóð, er að kynna sér hvaða tölur á skjánum sýna hvaða þátt verið sé að mæla og hverjar viðmiðunartölurnar eru. Einnig er gott að fylgjast með barninu og sjá hvernig því líður. Með tímanum veitir síritinn foreldrum öryggi og þægindi og hjálpar þeim að fylgjast með líðan barnsins. Reyndar veitir tækið með tímanum foreldrum oft það mikið öryggi að þeir eiga erfitt með að aðlagast því þegar ekki er lengur þörf fyrir að fylgjast á þennan hátt með lífsmörkum barnsins (2).

Myndir af sírita (kemur seinna)
Heimildir:
  1. Pierce, J. R. og Turner, B. S. (2006). Physiologic monitoring. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 117-131).St. Louise: Mosby.
  2. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.

Hjartsláttar og öndunarmælir

Hjartsláttur og öndun barnsins eru mæld með leiðslum, sem festar eru við barnið með litlum límkenndum leppum. Nefnast þeir elektróður og tengjast við síritann. Ein elektróðan er vanalega sett nálægt hjartanu, önnur á bringu eða kvið og sú þriðja á fótlegg barnsins. Eðlilegur hjartsláttur nýbura telst 110 til 160 slög á mínútu og eðlileg öndunartíðni 30 til 60 andardrættir á mínútu (1). Fyrirburar fæddir fyrir 35 vikur hafa tilhneigingu til óreglulegrar öndunar og geta hætt að anda í stuttan tíma. Ef öndunarhlé standa lengur yfir en tíu til fimmtán sekúndur og hjartsláttur hægist þá er það nefnt öndunarhlé og hægsláttur (e. apnea og bradycardia – stundum skammstafað A og B). Ef öndun eða hjartsláttur barnsins fara út fyrir þau mörk sem greind eru á síritanum, þá gefur tækið frá sér viðvörunarhljóð. Oft komast börnin sjálf upp úr þessum öndunartruflunum án hjálpar en það getur þurft að hjálpa þeim með því að ýta við þeim og örva þau. Viðvarandi vandamál gefur hins vegar til kynna að frekari meðferðar sé þörf við öndunarvanda barnsins (1,2).

Heimildir:

Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.

  1. Thompson, M. W. og Hunt, C. E. (2005). Control of breathing; development, apnea of prematurity, apparent life-threatening events, sunnden infant death syndrome. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 535-548). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).

Súrefnismettunarmælir

Súrefnismælirinn (e. oxygen saturation monitors – pulse oximeter) er festur utan um hönd eða fót barnsins og hefur ljósnema sem les magn súrefnis í blóðinu. Vafið er um mælinn með vafningi svo hann haldist betur fastur á sínum stað. Mælirinn segir til um hversu mörg prósent af blóðrauða í slagæðablóði barnsins hefur bundið súrefni. Hann mælir ekki nákvæmt súrefnismagn í blóðinu en gefur mjög góða mynd af því. Nemi mælirinn magn fyrir ofan eða neðan fyrirfram tilgreind viðmið gefur síriti frá sér viðvörunarmerki (1). Einnig er til nemi sem nemur súrefnisþrýsting í blóði barnsins. Hitar hann húðina lítillega sem eykur blóðflæði um hana og gerir þannig mælinguna nákvæmari. Neminn getur því skilið eftir rautt far á húð barnsins, en hann meiðir það ekki og farið dofnar og hverfur tiltölilega fljótt (2). Ákjósanleg súrefnismettun í blóðinu er um 90% sem þýðir að blóðið sé að flytja nálægt 100% af því súrefni sem það getur flutt. Ef hlutfallið verður of lágt kemur viðvörunarhljóð frá tækinu. Þetta getur gerst í kjölfar öndunarhlés (e. apneu), að barnið sýnir streitueinkenni vegna meðferðar eða vegna þess að gefa þarf barninu meira súrefni. Stundum fellur mettunargildið niður vegna hreyfinga barnsins og eru tölurnar þá ómarktækar (2).

Heimildir:
  1. Zaichkin, J. (2002b). A different beginning. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 15-31). California: NICU INK Book Publishers.
  2. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.