Öndunarerfiðleikar – gærhimnusjúkdómur

Þegar barn fæðist löngu fyrir tímann, eru lungun í barninu ekki orðin nægilega þroskuð og því eru öndunarerfiðleikar algengir meðal fyrirbura. Glærhimnusjúkdómur er sjúkdómsheiti algengasta öndunarvanda fyrirbura (1). Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að barnið erfiðar við öndun, andar hratt eða stynur við útöndun, er með inndrátt á brjóstkassa og nasavængjablakt. Þetta geta læknar greint með því að horfa á barnið og brjóstkassa þess við öndun.

Hægt er að gefa móður barkstera á meðgöngu til að flýta fyrir lungnaþroska barnsins fyrir fæðingu, sem minnkar líkur á þessum sjúkdómi (2). Ef barnið fær sjúkdóminn er hægt að gefa barninu lungnablöðruseyti (e. surfactant) ofan í lungun, sem léttir barninu öndunina (1). Meðferð við sjúkdómnum felst í því að fylgjast með öndun og súrefnismettun og veita öndunaraðstoð eftir þörfum (1,3).

Vitað er að líkurnar á glærhimnusjúkdómi eru meiri hjá 1) sveinbörnum, 2) þeim tvíbura er fæðist síðar, 3) ef móðirin hefur þjáðst af meðgöngusykursýki og 4) ef fæðingin gekk erfiðlega (1). Á ensku er talað um glærhimnusjúkdóm sem Hyaline Membrane eða Respiratory Distress Syndrome, skammstafað RDS.

Heimildir:
  1. Askin, D. F. (2002). Major medical problems. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 165-209). California: NICU INK Book Publishers.
  2. Glicken, A., Tappero, E. og Mereinstein, G. B. (2006). Evidence-based clinical practice decisions. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 1-10). St. Louise: Mosby.
  3. Bradford, N. (2000). Your premature baby. London: Frances Lincoln Ltd.