Rangtúlkum ekki neitt

Á sjúkrahúsi er nálægð oft mikil og foreldrar geta heyrt í öðrum foreldrum og í starfsfólki og læknum ræða saman eða í síma. Foreldrar þurfa að virða friðhelgi annarra barna og foreldra og gæta þagmælsku um það sem þau kynnu að verða vitni að á deildinni. Fólk ætti að varast að grípa eitthvað úr lausu lofti ef það heyrir það útundan sér og bæta inn í eyðurnar og spyrja frekar starfsfólk út í hlutina.

Gott (erlent) dæmi um misskilning sem vaknaði á þennan hátt var þegar móðir heyrði samskipti hjúkrunarfræðinga við vaktborðið og heyrði að ein sagði að það hefði ekki náðst að þrífa hitakassana. Móðirin greip það á lofti og dró þá ályktun að þær væru að tala um hitakassann sem barnið hennar var í og var viss um að barnið væri orðið veikt í kjölfarið og varð mjög reið út í starfsfólkið. En það var ekki það sem við var átt. Samtal hjúkrunarfræðinganna átti sér stað um vaktskipti og á fyrri vaktinni átti að láta þrífa einhverja tóma hitakassa en það hafði ekki náðst og því var seinni vaktin látin vita að það væri enn ógert.