Naflaleggur

Stundum þarf að koma fyrir legg í nafla barnsins (e. umbilical line / catheter). Leggur þessi er örmjó plastslanga sem er ýmist þræddur í bláæð eða slagæð í nafla barnsins, sérstaklega ef barnið er með öndunarörðugleika en þá þarf oft að taka úr því blóð. Hægt er að gefa barninu vökva, næringu og lyf í gegnum naflalegginn auk þess að taka þaðan blóðsýni. Hafi barnið slagæðalegg er hann tengdur við þrýstingsnema (e. transducer) til að hægt sé að mæla stöðugt blóðþrýsting barnsins og sýna hann á síritanum (1,2).

 

Ógnvænlegt getur verið að sjá legginn í nafla barnsins og telja foreldar oft að sársauki þess sé töluverður. En barnið finnur ekki til, engar taugar eru þar sem leggurinn er staðsettur og því ein sársaukaminnsta aðferð til að taka blóð og fylgjast með líðan þess. Starfsfólk aðstoðar foreldra og leiðbeinir um hvernig hreyfa megi barnið eða halda á því meðan það er með naflalegg (3).

 

Heimildir:

  1. Bradford, N. (2000). Your premature baby. London: Frances Lincoln Ltd.
  2. Zaichkin, J. (2002b). A different beginning. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 15-31). California: NICU INK Book Publishers.
  3. Bradshaw, W. T., Turner, B. S. og Pierce, J. R. (2006). Physiologic monitoring. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls.139-156). St. Louise: Mosby.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.