Heilablæðing

Minnstu fyrirburarnir og börn sem orðið hafa fyrir áfalli í fæðingu eiga mest á hættu að fá heilablæðingu. Við fæðingu breytist umhverfi barnsins og um leið blóðflæði og súrefni um heilann. Þetta getur orðið til þess að viðkvæmar æðar í heila barnsins gefi sig og þar blæði. Einkenni heilablæðinga eru oft lítil og er blæðingin yfirleitt greind og metin með ómskoðun á höfði (1). Algengast er að heilablæðing eigi sér stað á þremur fyrstu dögum eftir fæðingu og er ólíklegt að blæðing eigi sér stað eftir fyrstu vikuna í lífi barnsins (2).

 

Heilablæðingar eru flokkaðar í fjórar gráður eftir alvarleika og eru nefndar gráða 1, 2, 3 og 4. Heilablæðing af gráðu 1 er lítil blæðing inn við hliðarhólf heilans. Gráða 2 er það kallað þegar blæðingin hefur brotist inn í heilahólf. Við gráðu 3 hefur blæðingin vaxið það mikið að orðið hefur útvíkkun á heilahólfinu. Gráða 4 er mikil blæðing í heilavef sem hefur yfirleitt brotist inn í heilahólf (1).

 

Börn sem fá heilablæðingu af fyrstu eða annarri gráðu eiga jafn mikla möguleika til eðlilegs þroska og börn sem ekki hafa ekki fengið heilablæðingu. Á hinn bóginn eru börn sem fá heilablæðingu af þriðju eða fjórðu gráðu í aukinni áhættu að fá þroskaskerðingu í kjölfar blæðingarinnar (1,3).

 

Talið er að allt að 60% barna sem fædd eru undir 1000 grömmum fái einhverja heilablæðingu en í flestum tilfellum er blæðingin af fyrstu eða annarri gráðu og um 90% eiga ekki við nein langvarandi vandamál að stríða í kjölfarið (1). Tíðni alvarlegra heilablæðinga hefur farið minnkandi undanfarin ár. Erlendar tölur sýna að um 9-13 % barna með fæðingarþynd undir 1000 g fá alvarlega heilablæðingu en aðeins 2-5% barna með fæðingarþyngd yfir 1000 g. Ef miðað er við meðgöngulengd er tíðni alvarlegra heilablæðinga 16% meðal barna sem fædd eru fyrir 25 vikna meðgöngu en aðeins 1-2% meðal barna sem fæðast eftir meira en 25 vikna meðgöngulengd (2).

 

Á ensku er talað um intraventricular hemorrhage eða intracranial hemorrhage.

 

Heimildir:

  1. Askin, D. F. (2002). Major medical problems. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 165-209). California: NICU INK Book Publishers.
  2. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  3. Vassilyadi, M., Tataryn, Z., Shamji M. og Ventureyra, C. G. (2009). Functional outcomes among premature infants with intraventricular hemorrhage. Pediatric Neurosurgery, 45, 247-255.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.