Helstu vandamál fyrirbura á nýburagjörgæslu

Hér verður leitast við að útskýra helstu erfiðleika sem fyrirburar geta átt við að etja á meðan sjúkrahúsdvöl þeirra stendur.

Við hverju má búast?

Helstu vandamál sem fyrirséð er að fyrirburar glími við eru: erfiðleikar við öndun, við að halda á sér hita og við að nærast (1). Erfiðleikar fyrirbura við öndun stafar af óþroskuðum lungum og þeir eiga í erfiðleikum með að halda á sér hita, einkum vegna lítillar líkamsfitu. Erfiðleikar fyrirbura við að nærast eru vegna þess hve meltingarfæri þeirra eru óþroskuð og þá skortir samhæfingu til þess að sjúga, kyngja og anda á sama tíma.

 

Ýmislegt hefur áhrif á batahorfur fyrirbura. Meðgöngulengd skiptir þar mestu máli og aukast batahorfur fyrirbura með hverjum deginum sem þeir ná í meðgöngulengd, en einnig hefur það áhrif hvernig fæðinguna ber að, hvort barnið sé stúlka eða drengur , hvort það sé einburi eða fjölburi og hvort barnið hafi fengið barkstera á meðgöngu til að flýta fyrir lungnaþroska (2). Því styttra meðgengin þeim mun meiri vandamál er líklegra að barnið eigi við og þeim mun meiri aðstoð er það líklegt til að þurfa á að halda (3).

 

Í dag er víða um heim miðað við 24 vikna meðgöngu sem viðmið um hvenær barn teljist eiga möguleika á að lifa (2). Börn sem fæðast áður en 30 vikna meðgöngu er náð munu þurfa að dvelja á nýburadeildinni í margar vikur, þar til þau nálgast settan fæðingardag og jafnvel lengur (4). Þau eru líkleg til að eiga við ýmis vandamál að stríða á fyrstu vikunum og munu þurfa að vera í hitakassa fyrstu vikurnar og nær öll að fá öndunaraðstoð (5,3,6).

 

Börn sem fæðast eftir 30-34 vikna meðgöngu þurfa að dvelja á nýburadeildinni í nokkra stund. Þau þurfa að fara í hitakassa misjafnlega lengi og geta sum þurft á öndunaraðstoð að halda, sérstaklega þau sem fæðast fyrir 32 vikur. Börnin eru í áhættu að eiga við ýmis vandamál að stríða fyrstu vikurnar og hafa ekki náð fullum þroska til að nærast af brjóstinu og þurfa aðstoð við það (1).

 

Börn sem fæðast eftir 34 og fyrir 37 vikna meðgöngu eru oft nefndir síðfyrirburar (e. late preterm). Þau börn teljast ekki í jafn mikilli áhættu og þau sem fæðast fyrir 34 vikur en í mun meiri áhættu en börn fædd eftir fulla meðgöngu að þróa með sér ýmis vandamál (7,8). Þau börn eru líkt og aðrir fyrirburar ekki aðeins smá, heldur einnig óþroskuð við fæðingu (9,10). Síðfyrirburar eru í aukinni áhættu að eiga við ýmis vandamál að stríða, svo sem öndunarvanda og líklegri til að fá gulu sem þeir þarfnast ljósameðferðar við (7,8), eiga efitt með að nærast af brjósti fyrst eftir fæðinguna (9) og eru mun líklegri til að þurfa að leggjast aftur inn á sjúkrahús en börn sem fædd eru eftir fulla meðgöngu. Vandamál barnanna eru þó yfirleitt mildari en þeirra sem fædd eru meira fyrir tímann og þau fljótari að vinna sig upp úr þeim (1).

 

 

Heimildir:

  1. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.
  2. Tyson, J. E. Parikh, N. A., Langer, J., Green. C. og Higgins, R. D. (2008). Intensive care for extreme prematurity – moving beyond gestational age. The New England Journal of Medicine, 358, 1672-1681.
  3. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  4. Korvenranta, E., Linna, M., Häkkinen, U., Peltola, M., Anderson, Gissler, M. o.fl. (2007). Differences in the length of initial hospital stay in very preterm infants. Acta Pædiatriica, 96, 1416-1420.
  5. Zaichkin, J. (2002b). A different beginning. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 15-31). California: NICU INK Book Publishers
  6. Pompa, K. M. og Zaichkin, J. (2002). The NICU baby. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 117-139). California: NICU INK Book Publishers.
  7. Escobar, G. J., Clark, R. H. og Greene, J. D. (2006). Short-term outcomes of infants born at 35-36 weeks gestation: we need to ask more questions. Seminars in Perinatology, 30, 28-33.
  8. Melamed, N., Klinger, G, Tenenbaum-Gavish, K., Herscovici, T., Linder, N., Hod, M. o.fl., (2009). Short-term neonatal outcome in low-risk, spontaneous, singleton, late preterm deliveries. Obstetrics & Gynecology, 114, 253-260.
  9. Ludwig, S. M. (2007). Oral feeding and the late preterm infant. Newborn & Infant Nursing Rewiews, 7, 72-75.
  10. McGrath, J. M. (2007). “He´s just a little small”: Helping families to understand the implications of caring for a late preterm infant. Family Dynamics, 7, 120-121

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.