Reykingar á meðgöngu

Vitað er að reykingar á meðgöngu eru skaðlegar bæði móður og barni. Fylgni reykinga og fyrirbura- og léttburafæðinga er vel þekkt. Reykingakonur eru í meiri áhættu en aðrar konur að eiga fyrir tímann og áhættan eykst með auknum reykingum (1,2,3,4) og hafa óbeinar reykingar einnig áhrif (2). Reykingar á meðgöngu geta dregið úr vexti fóstursins. Börn mæðra sem reyktu á meðgöngunni eru því líklegri að vera léttari, styttri og hafa minna höfuðummál en börn mæðra sem ekki reyktu að meðgöngunni. Þessi staðreynd hefur verið mönnum ljós í nær þrjá áratugi (5). Reykingar á meðgöngu auka líkurnar á fyrirsætri fylgju, fylgjulosi, utanlegsfóstri og ótímabæru belgjarofi (1).

Íslenskar rannsóknir á reykingum meðal mæðra sem áttu litla fyrirbura á árunum 1982-1990 og 1991-1995 sýndu að hlutfallslega fleiri fyrirburamæður reyktu en mæður sem ekki áttu fyrirbura. Reykingar meðal fyrirburamæðra voru á öðru tímabilinu 37% og hinu 46% samanborið við aðeins 13% hjá mæðrum fullburða barna í samanburðarhópi (6). Rannsóknir hafa einnig sýnt að reykingar á meðgöngu auka líkurnar á því að barnið fái sýkingu eftir fæðingu (7) og að barnið látist vöggudauða (8,9).

Barnshafandi konum sem reykja er því ráðlagt að hætta að reykja sem fyrst. Í fræðslubæklingnum Reykingar og meðganga má finna góða samantekt um áhrif reykinga á meðgöngu, auk hollráða og ávinning þess að hætta að reykja.
 

Á vefsíðunni Reyklaus.is er hægt að fá stuðning við að hætta reykingum. Reyksíminn 800-6030 er grænt númer þar sem veitt er persónubundin ráðgjöf og í gegnum tölvupóst.

 

Heimildir:

  1. Castles, A., Adams, E. K., Melvin, C. L., Kelsch, C. og Boulton, M. L. (1999). Effects of smoking during pregnancy: five meta-analyses. American Journal of Preventive Medicine, 16, 208-215.
  2. Fantuzzi, G., Aggazotti, G., Righi, E., Facchinetti, F., Betucci, E., Kanitz, S., o.fl. (2007). Preterm delivery and exposuer to active and passive smoking during pregnancy: a case-control study from Italy. Paediatric and Perinatal Epodemiology, 21, 194-200.
  3. Nabet, C., Ancel, P., Burguet, A. & Kaminski, M. (2005). Smoking during pregnancy and preterm birth according to obstetric history: French national perinatal survey. Paediatric and Perinatal Epidemiology, 19, 88-96.
  4. Wisborg, K., Henriksen, T. B., Hedegaard, M. og Secher, N. J. (1996). Smoking during pregnancy and preterm birth. British Hournal of Obstetrics and Gynaecology,103. 800-805.
  5. Sweet, A. Y. (1986). Classification of the Low-Birth-Weight Infant. Í M. H. Klaus og A. A. Fanaroff (Ritsj.), Care of the High-Risk Neonate. (3. útgáfa, bls. 69-95). Philadelphia: W. B. Saunders Company.
  6. Ingibjörg Georgsdóttir, Evald Sæmundsen, Ingibjörg Símonardóttir, Jónas G. Halldórsson, Snæfríður Þ. Egilsson, Þóra Leósdóttir o.fl. (2003). Litlir fyrirburar á Íslandi. Heilsufar og þroski. Læknablaðið, 89, 575-581.
  7. Jeppesen, D. L., Nielsen, S. D., Ersbøll, A. K. og Valerius, N. H. (2008). Maternal smoking during pregnancy increases the risk of postnatal infections in preterm neonates. Neonatology, 94, 75-78.
  8. Haglund, B. og Cnattingius, S. (1990). Cigarette smoking as a risk factor for sudden infant death syndrome: a population-based study. American Journal of Public Health, 80, 29-32.
  9. Shah, T., Sullivan, K. & Carter, J. (2006). Sudden infant death syndrome and reported maternal smoking during pregnancy. American Journal of Public Health, 96, 1757-1759.

 

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.