Viðbrögð foreldra við fæðingu fyrirbura

Það getur verið erfið reynsla fyrir foreldra að sjá litla barnið sitt í fyrsta sinn, lítið og veikburða tengt við vélar og tæki á nýburagjörgæslunni. Í rannsókn sinni ræddi Jónína Einarsdóttir (1,2) við foreldra barna með fæðingarþyngd undir 1000 grömm. Viðbrögð foreldranna við að sjá barnið sitt í fyrsta sinn voru misjöfn.

 

Sumum þótti barnið helst minna á fóstur eða fuglsunga og nokkrir töldu sig ekki finna fyrir verulegri foreldratilfinningu gagnvart barninu. Margir nefndu að mun léttara hefði verið að sjá barnið í annað sinn og að útlit þess hafi vanist mjög fljótt. Aftur á móti fannst sumum foreldrum barnið sitt fallegast í heimi og svo sannarlega þeirra barn. Sumir foreldrar voru bjartsýnir og þótti barnið sitt hraustlegt, en viðbrögð annarra foreldra einkenndust af vonleysi og skynjun á barninu sem hjálparvana.

 

Sumir foreldranna voru hissa á hamingjuóskum starfsfólks þegar barnið þeirra var nýfætt, en fannst þó ákveðin bjartsýni felast í þeim óskum. Ættingjar og vinir foreldranna í rannsókninni voru oft á tíðum tregir til að gefa sængurgjafir. Margar mæðurnar tóku sérstaklega nærri sér að fá ekki gjafir fyrir barnið og túlkuðu það þannig að aðrir hefðu ekki trú á að barnið þeirra myndi lifa. Algengar sængurgjafir voru táknræns og trúarlegs eðlis, til dæmis kerti, blóm eða kross en sjaldgæft var að fólk fengi föt á barnið (1).

 

Nánar er fjallað um tilfinningar foreldra og foreldrahlutverkið undir liðnum
foreldrahlutverkið á nýburagjörgæslunni.

 

Heimildir

  1. Jónína Einarsdóttir. (2005). Máttug mannabörn fædd fyrir tímann. Í „Ungir Íslendingar í ljósi vísindanna“: Erindi flutt á málþingi umboðsmanns barna og háskólarektors 5. nóvember 2004 (bls. 269-276). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  2. Jónína Einarsdóttir. (2007). Parents‘ first encounter with their preemie: distance or devotion? Í E. V. Donger og R. Kutalek (Ritstj.), Facing Distress: Distance and Proximity in Times of Illness (bls. 104-116). Vienna: LIT-verlag.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.