Barnið fætt

Þegar barn fæðist breytist ýmislegt í líkamsstarfsemi þess til að gera því kleift að lifa utan móðurkviðar og þær mikilvægustu eru breytingar á öndun og blóðrás sem verða til þess að loftskipti sem áður fóru fram í gegnum fylgju þurfa að eiga sér stað í lungum barnanna (1). Í stað þess að fá súrefni í gegnum fylgjuna þarf barnið nú að anda sjálft og eiga fyrirburar gjarnan erfitt með þessi umskipti.

 

Ef barnið andar ekki nægilega vel, þá hægist hjartsláttur þess og húðlitur breytist. Oft er nóg að þurrka barnið og nudda bak þess og örva það til að auðvelda öndunina. En ef það dugar ekki til þarf að gefa því súrefni eða veita barninu öndunaraðstoð, sem er yfirleitt gert með því að nota belg og maska. Sú aðstoð dugir oftast ein og sér til þess að ná upp hjartslætti og halda honum eðlilegum (1).

 

Mikilvægt er að halda líkamshita barnsins stöðugum og ef ástand þess leyfir er það sett á bringu móður, þurrkað og lögð yfir það hlý ábreiða. Sé barnið fætt mikið fyrir tímann eða ástand þess óstöðugt er farið með það rakleiðis á skoðunarborð undir hitalampa þar sem barnið er hitað og ástand þess metið. Börn undir 1500 g við fæðingu eru gjarnan vafin inn í áklæði frá öxlum og niður áður en þau eru þurrkuð og sett beint undir hitalampann. Því næst er öndunarvegur þeirra hreinsaður, þau örvuð og hjálpað með öndun eftir þörfum (2,3).

 

Öll börn sem fæðast eru prófuð eftir svokölluðu Apgar prófi sem er alþjóðlegur mælikvarði á ástand barns við fæðingu. Þar eru gefin stig eftir ástandi barns mínútu eftir fæðingu og aftur að fimm mínútum liðnum.Tafla 2. Apgar stigun nýbura (1)

 

Apgar stigun

 

 

 

 

 

 

 

APGAR

0

1

2

Hjartsláttur

Enginn

Minna en 100

Meira en 100

Öndun

Engin

Hæg og óregluleg

Góð

Vöðvaspenna

Slök

Smáhreyfingar

Góðar hreyfingar

Litarháttur

Fölur eða blár

Búkur rauður

Rauður

Svar við ertingu

Ekkert

Grátur

Kröftugur grátur

 

 

Gefin eru stig á kvarðanum 0 til 10 í heildina, frá núll og upp að tveimur stigum fyrir hvern lið um sig, hjartslátt, öndun, vöðvaspennu, litarhátt og svar við ertingu. Núll er þá versta ástandið og tveir það besta fyrir hvern lið (2). Þetta er gert til að meta ástand nýbura fljótt og örugglega á skýran hátt sem er samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.

 

Hitakassi er hafður tilbúinn og eftir skoðun á fæðingargangi er barnið sett í kassann og flutt á Vökudeild Barnaspítalans sem er stutt frá fæðingargangi. Það fer eftir ástandi barnsins við fæðingu og meðgöngulengd þess hvort og hversu mikið foreldrar fá að sjá barnið áður en flutningur á Vökudeildina á sér stað. Foreldrarnir bíða á fæðingarstofunni á meðan læknar skoða og annast barnið. Að því loknu fá þeir að fara til barnsins um leið og ástand þess og móður leyfir.

 

Móðirin er svo innrituð í sængurlegu á Kvennadeild Landspítalans og er persónubundið hversu lengi hún dvelur þar. Ef barnið þarf litla læknishjálp og hefur fæðst skömmu fyrir tímann á það möguleika á að dvelja hjá móður sinni. En sé það fætt vel fyrir tímann og þarfnist frekari læknishjálpar, dvelur það áfram á Vökudeild (4).

 

Heimildir

  1. Þórður Þórkelsson og Atli Dagbjartsson. (2006). Endurlífgun nýbura, klínískar leiðbeiningar. Læknablaðið, 92, 859-865.
  2. Niermeyer, S. og Clarke, S. B. (2006). Delivery room care. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner, (2006). Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 54-78). St. Louise: Mosby.
  3. Ringer, S. A. (2008). Care of the extremely low-birth-weight infant. Í J. P. Cloherty, E: C. Eichenwald, og A. R. Stark (Ritstj.), Manual of Neontalal Care (6. Útgáfa, bls. 78-86). Philadelphia: Wolters Kluwer Health/Lippincott Williams & Wilkins.
  4. Þórður Þórkelsson og Ragheiður Sigurðardóttir, persónulegar upplýsingar

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.