Feður og mæður

Feður hafa lýst því sem erfiðri reynslu að eignast barn fyrir tímann. Oft höfðu feður stuttan tíma til að undirbúa sig þar sem fæðinguna bar brátt að og höfðu sumir aldrei áður velt því fyrir sér að börn gætu fæðst fyrir tímann. Fyrstu dagarnir eftir fæðingu voru skrítnir og áttu margir í erfiðleikum með að skilja aðstæður og höfðu sumir hverjir ekki áttað sig á því að barnið þyrfti að dvelja á sjúkrahúsinu vikum saman (1). Feður upplifðu sig oft utanveltu og fannst þeir ekki hafa stjórn á aðstæðum (2,1). Feður geta upplifað sig í mörgum hlutverkum, sem feður, makar og stuðningsaðilar, fyrirvinnur og sem tengilið milli fjölskyldunnar og ættingja, sem flytur fréttir af líðan barnsins og konunnar (2).

 

Fólk getur brugðist misjafnt við aðstæðum og sumir eiga erfitt með að skilja af hverju makinn virðist ekki uppplifa sömu tilfinningar. Sumir feður vilja fara aftur til vinnu fljótlega eftir fæðinguna, því þeim finnst þeir ekki gera gagn sitjandi við hitakassann allan daginn. Feður sem taka þátt frá upphafi verða fljótlega virkir umönnunaraðilar. Það getur verið gott fyrir foreldra að deila álaginu með því að fara stundum í sitt hvoru lagi til barnsins á sjúkrahúsið. Annar aðilinn getur fengið tíma til að tengjast barninu meðan hinn hvílir sig. Þegar barnið stækkar og dafnar á sjúkrahúsinu eru foreldrar oft hvattir til að taka sér smá frí frá sjúkrahúsinu og fara saman og slaka á og njóta samvista við hvort annað (3). Foreldrar ættu að tala saman og deila tilfinningum sínum. Þetta er erfiður tími fyrir báða aðila og mikilvægt að standa saman og styðja hvort annað.

 

Heimildir:

  1. Lindberg, B., Axelson, K. og Öhrling, K. (2007). The birth of premature infants: experiences from the fathers’ perspective. Journal of Neonatal Nursing, 13, 142-149.
  2. Arociasamy, V., Holsti, L. og Albersheim, S. (2008). Fathers´ experiences in the neonatal intensive care unit: a search for control. Pediatrics, 121, 215-222.
  3. Kenner, C., Flandermeyer, A. og Thornburg, P. (2002). Parenting in the NICU. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 94-108). California: NICU INK Book Publishers.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.